Listaverkavefur MA

Myndlist hefur ævinlega fylgt Menntaskólanum á Akureyri og nemendur hafa átt skólavist sína umkringdir listaverkum, í kennslustofum, á göngum og í öðrum rýmum. Það er ekki sjálfgefið, og margir undrast að saman fari unglingar og viðkvæm listaverk. En svona hefur þetta gengið.

Nú eiga ekki allir leið um skóla. Fyrir nokkru kom í opið hús í MA 17. júní prúðbúin eldri kona, sem sagðist hafa búið alla sína tíð í grennd við skólann en aldrei stigið fæti inn í það sem hún kallaði „musterið.“ Hrifning hennar var ósvikin, hún var heilluð af þeim heimi sem hún sá og sagðist hefðu viljað koma fyrr og oftar, en einhvern veginn hefði hún ekki fengið sig til þess.

Nú er hins vegar öllum, utan skóla sem innan, mögulegt að skoða listmuni skólans hér á þessum vef, og listasafnið er býsna stórt. Gjörið svo vel og njótið.