Listaverk eru daglegt umhverfi nemenda og kennara Menntaskólans á Akureyri. Í skrá um listmuni skólans eru á þriðja hundrað gripir, sem safnast hafa að skólanum á löngum tíma. Þá eru ekki taldir með margir tugir ljósmynda af stúdentaárgöngum við brautskráningu eða skólaspjöldin, sem þekja veggi ganganna í Gamla skóla.
Áberandi er hversu mörg listaverk skólinn hefur eignast á árunum frá 1930 og fram til 1950. Verk frá þeim tveim áratugum eru efni í sérstaka sýningu eða safn. Sum verkin eru sannanlega eldri en þetta, frá tímum Gagnfræðaskólans á Akureyri, sem varð svo Menntaskólinn á Akureyri 1930. Vera má að skólinn hafi fengið fjárveitingar til listaverkakaupa á þessum árum, en jafnframt er ljóst að honum hafa borist listaverkagjafir á þeim tíma, og það gerist af og til enn á okkar dögum.
Mörg verkanna í safninu eru gjafir frá stúdentaárgöngum, stundum verk gerð af einhverjum listamanninum í hópnum, stundum portret af kennurum eða öðrum starfsmönnum skólans. Einhver verkanna eru minningargjafir eftir látna skólafélaga. Þarna eru líka verk sem listamenn hafa gefið skólanum í þakklætisskyni fyrir að hafa fengið að sýna verk í húsum skólans og skólinn hefur keypt verk af þeim og öðrum listamönnum, eins og gengur og gerist.
Ef að er gáð má með sanni segja að skólinn sé listasafn. Einhvern tíma var haft í huga að í hverri kennslustofu og hverju vinnurými væri að minnsta kosti eitt listaverk. Þetta hefur mörgum þótt sérkennilegt og stundum hefur verið spurt hvernig þetta geti farið saman, hvort sprækir og fjörugir unglingar skemmi ekki listaverkin. En það er alls ekki svo. Án þess að sérstaklega sé um það rætt hafa nemendur áratugum saman umgengist listaverkin í skólanum af virðingu og varkárni. Örfá dæmi eru um smáóhöpp, en þau eru teljandi á örfáum fingrum. Listaverkin eru hluti af menntandi umhverfi nemendanna. Þau eru hluti af Menntaskólanum á Akureyri.
Langflest listaverkin eru málverk, olía á striga, einkum landslagsmyndir og portret af kennurum og starfsfólki. Í safninu er talsvert um verk með annarri tækni, ljósmyndir, ýmiss konar grafík og þrykk og jafnvel útsaumsverk. Höggmyndir og skúlptúrar eru líka í eigu skólans, sumt af því inni í húsum og annað úti á skólalóðinni, nokkrar brjóstmyndir og plattar, stundum til minningar eða að öðru tilefni, eru í þessu mikla safni. Það sem kalla má nytjalist eru til dæmis skólabjöllur, þrykkistimplar, fundahamrar og fleira af því tagi. Auk þess á skólinn margt annarra listmuna, skála og vasa og fleira. Og enn eru ótaldir og alls ekki á þessari skrá einhverjir tugir eða hundruð af uglum, sem skólanum hafa borist, stakar og í stórum söfnum, og eru kapítuli í skólasögunni út af fyrir sig.
Eðlilega eiga ekki miklu fleiri en nemendur og starfsfólk leið um ganga skólans og í kennslustofur og nemendur eiga ekki erindi inn í mörg af vinnurýmum starfsfólks. Þó að þeir hafi á skólagöngunni verið umvafðir listaverkum hafa þeir ekki haft tök á að sjá þau öll. Nú, þegar listmunir skólans eru komnir á vef, gefst hins vegar öllum sem vilja, hvar sem þeir eru, heima eða erlendis, færi á að skoða verkin, að minnsta kosti skyndimyndir af þeim.
Stefán Jónsson myndlistamaður og kennari hóf að skrásetja listmuni Menntaskólans um 1990 að beiðni Tryggva Gíslasonar skólameistara. Tryggvi hélt áfram skráningu eftir að hann lauk starfi sínu sem skólameistari skömmu eftir aldamót. Sverrir Páll Erlendsson tók upp þráðinn á árunum 2016-2018 og auk þess að auka við skrána útbjó hann merkispjöld og merkti þau verk sem á veggjum hanga, svipað og gert er á öðrum listasöfnum. Eitthvað af listmunum skólans er í geymslu og ekki haft til sýnis, nema hér á vefnum.